Barna- og unglingamót Skautasambands Íslands verður haldið um komandi helgi. Allir eru velkomnir að koma og horfa á bestu skautara landsins etja þar kappi. Frítt er inn og foreldrafélag deildarinnar selur kaffi og með því á vægu verði, til styrktar iðkendum.
Bæði A og B iðkendur frá Skautafélagi Akureyrar, Skautafélagi Reykjavíkur og Birninum sýna listir sínar á svellinu. Í öllum flokkum eru úrslit hengd upp um leið og niðurstaðan hefur verið reiknuð út og verður þeim sem ná efstu þremur sætunum veitt verðlaun. Þannig finnst mörgum gaman að hafa með sér penna og skrifa hjá sér stigin til að fylgjast með því hver er í forystu. Í elstu A flokkunum, sem kallast, Novice (stúlknaflokkur), Junior (unglingaflokkur) og Senior (kvennaflokkur) er keppt bæði á laugardag og sunnudag, niðurstaða þeirra flokka ræðst því ekki fyrr en seinni daginn, eftir seinni dansinn. Allir B flokkar og yngri A flokkar keppa bara einu sinni, þannig að eftir blóð svita og tár eru það bara 2-3 mínútur ráða úrslitum.