Karfan er tóm.
Í gær fór fram hér í Skautahöllinni Opnunarhátíð Vetraríþróttahátíðar 2010 og 10 ára afmælishátíð Skautahallarinnar. Mikið var um dýrðir og mikill fjöldi fólks lagði leið sína í skautahöllina að þessu tilefni. Opnunaratriðið hátíðarinnar var skemmtileg skrúðganga inn á ísinn þar sem fulltrúar vetraríþrótta í bænum fylktu liði og báru sína félagsfána undir taktföstu lófaklappi áhorfenda. Auk gangandi fólks þá voru einnig vélsleðar, vélhjól, hestar og já einn bíll.
Nú stendur yfir Norðurlandamótið í listhlaupi sem haldið er í Asker í Noregi. Tveir íslenskir keppendur taka þátt, sem eru Dana Rut og Heiðbjört Arney, við óskum þeim góðs gengis. Nánari fréttir af íslensku keppendunum er hægt að nálgast á heimasíðu ÍSS, http://skautasamband.is/ einnig er hægt að skoða heimasíðu mótsins http://www.nordics2010.no/
Eini íþróttaviðburðurinn sem skiptir einhverju máli fer fram í Egilshöllinni í dag kl. 16:30 er við Norðanmenn höldum suður yfir heiðar og tökum í lurginn á Bjarnarmönnum. Það er orðið tímabært að stoppa sigurgöngu þeirra og tryggja stöðu SA á toppi deildarinnar.
Undirbúningur fyrir Vetraríþróttahátíð ÍSÍ 2010 stendur sem hæst en hátíðin fer fram á Akureyri þar sem Vetraríþróttamiðstöð Íslands er staðsett. Hátíðin verður sett laugardaginn 6. febrúar hér í Skautahöllinni með mikilli sýningu þar sem fram koma m.a. hæfileikaríkir iðkendur í listhlaupi en Skautahöllin fagnar einmitt 10 ára afmæli sínu á þessu ári. Ólympíufararnir munu heiðra samkomuna og munu síðan halda utan til Vancouver í Kanada til þátttöku í Vetrarólympíuleikunum.
Vetraríþróttahátíð ÍSÍ stendur dagana 6. febrúar til 21. mars Á dagskrá Vetraríþróttahátíðar ÍSÍ er að finna viðburði sem ná yfir sem flestar greinar þar sem vetraríþróttir eru í aðalhlutverki.
Skautafélagið og Skautahöllin munu taka mikinn þátt í hátíðinni og verða ýmsir viðburðir á vegum félagins sérstaklega í tilefni hátíðarinnar auk þess sem fastir liðir í dagskrá svo sem mót og keppnir munu fara fram undir merkjum hátíðarinnar meðan á henni stendur.