Skemmtileg ferð í Jarðböðin í gær!
Í gær fóru iðkendur æfingabúðanna ásamt þjálfurum og foreldrum í skemmtilega ferð austur. Stoppað var á 4 stöðum alls. Við byrjuðum á að skoða Goðafoss og keyrðum svo áleiðis að Námaskarði, þaðan lá leiðin í Jarðböðin við Mývatn og á endanum var stoppað á Grenjaðarstað þar sem hópurinn fékk leiðsögn frá Audrey, sem er safnvörður þar í sumar. Ekki var að sjá annað en að allir skemmtu sér konunglega og vonandi fer Nottingham gengið heim með fallegar minningar um Ísland og veru sína hér hjá okkur. Ég vil þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir að gera þessa ferð mögulega.
Æfingabúðirnar ganga vonum framar og eru allir að ná miklum framförum. Joy, Karen og Tristan eru virkilega ánægð með alla iðkendurna. Þau hlakka til að koma aftur og ætla þá jafnvel að koma með stærri hóp skautara með sér.
Það er gaman að sjá hversu áhugasama og duglega krakka við eigum hér á Akureyri og er ég mjög stolt af þeim öllum!
Það er svo frí hjá öllum á sunnudag og mánudag og á þriðjudaginn kemur svo Sanna-Maija Wiksten að þjálfa hjá okkur. Hún var Finnlandsmeistari fyrir nokkrum árum og keppti t.d. á bæði Evrópumótum og Heimsmeistaramótum. Hún þjálfar þessa stundina í Helsinki. Einnig munum við fá til okkar Hólmfríði Jóhannsdóttur sem mun sjá um af-ís kennslu. Hún er íþróttakennari, Gravity, Fit Pilates og Les Mills kennari og kennir þessa stundina hjá líkamsræktarstöðinni Bjargi.
Kv. Helga Margrét yfirþjálfari