23.03.2018
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí mætir Tapei í síðasta leik sínum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Valdemoro á Spáni. Ísland getur með sigri náð silfurverðlaunum á mótinu sem er þá besti árangur sem íslenska kvennalandsliðið hefur náð á stórmóti. Leikurinn hefst kl 12.00 og er í beinni útsendingu hér.
19.03.2018
Sarah Smiley skoraði 4 mörk og átti tvær stoðsendingar í glæsilegum sigri Íslands á Nýja-Sjálandi á heimsmeistaramótinu í gær. Sarah lagði upp tvö fyrstu mörk Íslands í leiknum en Nýja-Sjáland leiddi 3-2 þangað til 4 sekúndur voru eftir af leiknum en þá skoraði Sarah jöfnunarmark Íslands. Leikurinn fór í framlengingu og svo vítakeppni þar sem Sarah tók sig til og jafnaði metin í 5. víti Íslands. Hún var svo látin taka 6. og 7. vítaskotin og skoraði örugglega úr öllum þremur vítunum og tryggði Íslandi mikilvægan sigur í baráttunni um verðlaunarsætin á heimsmeistaramótinu. Glæsilegur leikur hjá okkar stelpum og þá sérstaklega hjá Söruh sem liðsfélagar völdu sem töframann leiksins. Ísland á frídag í dag en mætir Tyrklandi á morgun kl 12.00 á íslenskum tíma og er sýndur beint hér.
18.03.2018
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí mætir Nýja-Sjálandi í dag kl 15.30 í öðrum leik sínum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Valdemoro á Spáni. Íslenska tapaði naumlega gegn heimaliði Spánar í gær. Bein útsending er frá leiknum í dag útsendinguna má finna hér.
16.03.2018
Kvennalandslið Íslands í íshokkí hefur keppni á morgun, laugardag, á heimsmeistaramótinu í II deild B sem fram fer í Valdemoro á Spáni. Fyrsti leikur liðsins er gegn heimaliði Spánar og hefst leikurinn kl. 19.15 á íslenskum tíma en beina útsendingu frá leiknum má finna hér.
13.03.2018
SA Víkingar taka á móti SR í kvöld í Hertz-deild karla í Skautahöllinni á Akureyri og hefst leikurinn kl 19.30. SA Víkingar eru búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en SR sigla lignan sjó í síðasta sæti deildarinnar. Aðgangseyrir 1000 kr. frítt inn fyrir 16 ára og yngri.
12.03.2018
Það voru gömlu brýnin í Ásynjum sem höfðu betur í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi, sunnudagskvöld. Það voru þó Ynjur sem byrjuðu leikinn betur, Hilma átti skot framhjá, Ynjur héldu pekkinum og héldu áfram í sókn sem endaði með því að Silvía skoraði eftir aðeins rúmar tvær mínútur. Stoðsendingu átti Sunna. Þegar lotan var rúmlega hálfnuð áttu Ásynjur harða sókn og mikil þvaga myndaðist fyrir framan mark Ynja og það var Anna Sonja sem kom pekkinum að lokum í markið eftir góða sendingu frá Guðrúnu Marín. Staðan 1-1. Í lok lotunnar hrundi svo leikur Ynjanna og Ásynjur bættu tveimur mörkum við, fyrst speglaði Hrund pökkinn í markið og síðan sló Birna hann í markið stuttu síðar. Dómararnir tóku sér þá tíma til að ráða ráðum sínum þar sem spurning var hvort Birna hafi verið inn í krísunni en ákvörðunin var sú að markið hefði verið löglegt. Staðan 1-3 og þannig var staðan eftir fyrstu lotu.
09.03.2018
Ynjum tókst ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi, fimmtudagskvöld, þegar þær mættu Ásynjum öðru sinni í úrslitakeppninni. Ásynjur höfðu undirtökin lengst af í leiknum og sigurinn sanngjarn.
08.03.2018
Listhlaupadeildin tók þátt í Vetrarmót Skautasambands Íslands síðastliðina helgi, sem var haldið í Egilshöll að þessu sinni. Stóðu keppendur okkar sig með stakri príði og voru nokkrir okkar keppenda að spreyta sig í nýjum keppnisflokkum.
08.03.2018
Annar leikurinn í Úrslitakeppninni í Hertz-deild kvenna fer fram í kvöld í Skautahöllinni á Akureyri, leikurinn hefst kl 19.45. Ynjur sigruðu í fyrsta leiknum þar sem þær knúðu fram gullmark í framlengingu og geta því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld. Ásynjur geta með sigri jafnað einvígið og fari svo verður úrslitaleikur á sunnudag. Fítt inn á leikinn.
07.03.2018
Fyrsti leikur í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki fór fram í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, í skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn byrjaði hægt og stress virtist í báðum liðum en Ásynjur byrjuðu þó betur. Leikurinn var í járnum þar til rúmar 6 mínútur voru eftir af fyrstu lotu þegar Sarah geystist upp og skoraði eftir að Ynjur misstu pökkinn í sókn. Ásynjur voru grimmar áfram og sóttu stíft á mark Ynja en eftir að Ásynjur misstu Guðrúnu Marín út af, náðu Ynjur góðu spili einni fleiri, Ragga gaf þvert yfir svellið á Silvíu sem þrumaði pekkinum í mark Ásynja og jafnaði, 1-1. Þannig var staðan eftir fyrstu lotu.